Hver er Telma?
ÉG ER EKKI EIN AF ÞEIM SEM HEF ÁVALLT VERIÐ Í GÓÐU FORMI
Ég er án nokkurs vafa ein af þeim sem finnst gott að borða góðan mat enn kýs um leið að lifa lífinu í heilbrigðum líkama, full af orku og í andlegu jafnvægi.
Sagan mín
Ég fæddist á Ólafsfirði árið 1976. Frá barnsaldri var ég mjög iðinn persóna og stundaði nánast allar þær íþróttir sem voru á boðstólum. Knattspyrna, golf, tennis, sund og skíði eru nokkrar af þeim íþróttum sem ég stundaði á mínum yngri árum. Með miklu keppnisskapi afrekaði ég fjölmarga íslandsmeistaratitla í skíðagöngu og 12 ára var ég valin íþróttamaður ársins.
Lífsglöð persóna
Í framhaldsskóla tók líf mitt miklum líkamlegum breytingum. Á tveimur árum þyngdist ég um tæplega 30 kíló. Vanlíðan, þunglyndi og lítið sjálfstraust var farið að hrjá manneskju sem hafði alla tíð verið lífsglöð, örugg og gefandi persóna. Ég fór að nota mat við öllum tilfinningum, þegar ég stóð mig vel, til að hressa mig við þegar mér leiddist og til að rífa mig niður þegar eitthvað gekk ekki upp.
Tók málið í mínar hendur
Þegar ég sá hvert lífið stefndi í líkama sem mér leið engan veginn vel í gerði ég upp hug minn. Ég tók málið í mínar hendur og fór að stunda heilbrigðari lífsvenjur, stundaði hreyfingu daglega og veitti því athygli hvað ég borðaði. Árangurinn lét ekki á sér standa. Innan árs voru flest aukakílóin farin og orkan og andlega heilsan ólýsanlega góð.
Heilsan hafði yfirtekið hug minn.
Að upplifað þá vanlíðan sem fylgir því að vera illa á sig komin til þeirrar vellíðunar sem fylgir því að vera heilbrigð varð til þess að ég fór að hjálpa öðrum. Slæmt líkamlegt ástand kenndi mér að það er sem illgresi sem teigir út anga sína til alla þætti lífsins. Fólk á að hafa val um holdafar sitt, enn það er mikilvægt að öllum líði vel. Það eiga allir verðskuldað að vera í góðu formi. Það á enginn að fara á mis við kosti þess að búa í hraustum líkama. Holdafar er ekki heilusfar.
Starfa sem þjálfari
Áhugi minn á því hvernig best má byggja upp heilbrigðar lífsvenjur var ótæmandi. Ég hóf þjálfun í Hress Heilsurækt, sótti fjölda námskeiða og kenndi tíma á borð við BodyPump, BodyStep, BodyCombat, BodyAttack, BodyJam, spinning og sá um átaksnámskeið fyrir konur og karla. Ég sá strax að þetta vildi ég gera, aðstoða fólk í að líða vel í eigin skinni og hef gert það núna í um 17 ár. Ég tók í framhaldi FOAM FLEX kennararéttindi og klárað 200 klst. Jógakennaranám á vegum AMARAYOGA.
Veikindin mín
Þessi ár mín hafa ekki bara verið glimmer og glans, því árið 2009 veikist ég mjög mikið. Síðustu 10 ár hef ég þurf að glíma við allskonar verkefni varðandi mína sjúkdóma og sem betur fer er ég stöðugt að lækna mig með næringu, hvíld, hreyfingu og hugarfari. Ég nota alla þessa reynslu mína til að hjálpa öðrum sem eiga við heilsufarsvandamál að stríða. Það eru forréttindi að geta séð jákvæðu hliðarnar á veikindum sínum, það er alltaf stutt í brosið, dýrmætasta skartið mitt.
Árangurssögur
Í dag hef ég aðstoðað hundruði íslendinga að bæta lífsstílinn sinn. Fjölmargir viðskiptavinir hafa náð ótrúlegum árangri og má þar m.a. nefna 3 forsíður í Vikunni og 3 greinar í MAN þar sem fjallað er ítarlega um árangur hjá fólki með minni hjálp
Þú munt uppskera vellíðan
Á þessari vefsíðu nýtur þú visku og þekkingu mína á öllu því sem kemur að heilsu og vellíðan.
Gerðu þér grein fyrir því að það er ekki til sú leið að koma sér í form án fyrirhafnar.
Tileinkaðu þér holla næringu og næga hreyfingu og þú munt uppskera vellíðan, gott form og góða heilsu.